Bragi Skúlason

til formanns Fræðagarðs

Við erum alls konar fólk með alls konar menntun
í alls konar störfum hjá alls konar vinnuveitendum. 
Fjölbreytnin og samstaðan er styrkur okkar!

Kæru félagar í Fræðagarði.

Ég býð mig áfram fram til formanns Fræðagarðs til að vinna að þeim málum sem blasa við á næstu tveimur árum, þegar semja þarf um kaup og kjör fyrir allan vinnumarkaðinn á Íslandi. Þar bý ég yfir reynslu til margra ára.

Ennfremur vil ég vinna að því að auka fjölbreytina enn í samsetningu félagsins, með því að efla ólíka faghópa innan félagsins, ljúka stafrænni uppbyggingu þjónustuskrifstofunnar okkar og efla samstarf við þau félög sem við höfum átt farsælt samstarf við innan þjónustuskrifstofunnar.

Eitt höfum við að leiðarljósi hér eftir sem hingað til: Að veita félagsfólki okkar góða þjónustu.

Ég var kosinn formaður árið 2018 og má því bjóða mig fram samkvæmt lögum félagsins eitt tímabil í viðbót. Okkur hefur tekist vel upp í gegnum árin sem best sést á því að fjöldi félagsmanna hefur rúmlega þrefaldast á örfáum árum. Fyrir vikið erum við í dag stærsta aðildarfélag BHM með tilheyrandi áhrifum á stefnu bandalagsins.

Styrkleiki Fræðagarðs felst annars vegar í fjölbreytileika heildarinnar og hins vegar í þekkingu á sérhagsmunum einstaklinganna. Við erum í senn öflugur samnefnari og sterkur bakhjarl hvers og eins okkar. Í báðum tilfellum eru uppsöfnuð þekking og reynsla undanfarinna ára sterkustu vopn okkar.

Við eigum alls konar erindi fyrir hönd okkar félaga á ótrúlega mörgum vígstöðvum en ég tek slaginum fagnandi hendi.

Kurteislegar „kappræður“

Þær stóðu e.t.v. ekki undir nafni þessar fyrirhugðu „kappræður“ okkar formannsefnanna í Fræðagarði í hádeginu í gær. Til þess voru þær einfaldlega of kurteislegar og málefnalegar miðað við þá orðræðu og átök sem við eigum svo oft að venjast þessa dagana þegar tekist er á um leiðir og lausnir. Vonandi voru þær samt skemmtilegar á að hlýða fyrir þá sem fylgdust með útsendingunni - sem reyndar máttu vera fleiri. Fundurinn er víða ínáanlegur á netinu og það geta áhugasamir nýtt sér þar til kjörfundi lýkur n.k. sunnudagskvöld.

Mér fannst kappræðurnar endurspegla það að formannskjörið snýst ekki um stórar stefnubreytingar Í Fræðagarði og í rauninni ekki heldur miklar áherslubreytingar. Ég lít á það sem staðfestingu þess að Fræðagarður hefur verið á farsælli vegferð allar götur frá stofnun félagsins. Ég er hreykinn af því að hafa leitt þá vinnu og ég vona að ég fái tækifæri til þess að gera það í eitt kjörtímabil enn. Við höfum í sameiningu byggt upp félag sem ekki einasta er orðið það stærsta innan BHM heldur vafalítið eitt af þeim áhrifameiri á íslenskum vinnumarkaði. Ástæða þess er fjölbreytnin sem Fræðagarði er í blóð borin. Við eigum allskonar erindi við allskonar viðsemjendur fyrir félagsfólk okkar og komum því vafalítið víðar við í samningamálum en nokkurt annað stéttarfélag á landinu. Fyrir vikið hefur safnast upp í Fræðagarði skýr heildarmynd sem auðveldar okkur alla vinnu við einstök verkefni til muna.

Það eru margir á meðal viðsemjenda Fræðagarðs í varðstöðu og hagsmunabaráttu fyrir félagsmenn sína. Okkar fólk er starfandi við 141 opinbera stofnun ríkisins og hjá 58 af sveitarfélögum landsins. Til viðbótar eigum við svo starfsfólk innan veggja 439 fyrirtækja í einkarekstri. Alls rekum við erindi fyrir fjórar fagdeildir innan félagsins og með óteljandi mismunandi áherslur eftir því hverjir vinnuveitendurnir eru og jafnvel á hvaða stað. Sveitarfélögin eru t.d. langt í frá einsleit hjörð þegar kjör og aðbúnaður okkar fólks er annars vegar. Við höfum í gegnum rafræna upplýsingasöfnun að undanförnu náð góðri mynd af þeirri mismunun sem þar er í gangi. Hún nær því miður í fyrsta lagi til lakari kjara miðað við t.d. starfsfólk ríkisins og einkaframtaksins. Hún nær til óþolandi mismununar í launakjörum karla og kvenna með hundakúnstum sveitarfélaganna og hún nær einnig til ýmissa annarra réttinda okkar fólks. Leiðrétting gagnvart sveitarfélögunum er í mínum huga skýrt forgangsverkefni í þeim kjarasamningum sem eru í gangi og bíða okkar á næstu misserum.

Í viðræðum við hina fjölmörgu viðsemjendur okkar mun mikið reyna á uppsafnaða þekkingu og reynslu innan Fræðagarðs. Eflaust meira en nokkru sinni fyrr. Við stöndum frammi fyrir mörgum nýjum áskorunum og um leið nýjum tækifærum. Við erum stór, sterkur og samheldinn hópur og höfum náð því hingað til að koma fram sem öflugur kór enda þótt raddir hans séu mismunandi eins og vera ber. Það er gott fyrir lýðræðið okkar að tekist sé á um formannsstólinn af þeim drengskap sem raun ber vitni. Þannig verður umræðan okkar innbyrðis um félagið og verkefni þess vafalaust gott vegarnesti inn í þá mikilvægu hagsmunagæslu sem bíður okkar.

Ég hvet félagsfólk í Fræðagarði til þess að taka þátt í formannskjörinu og setja þannig forystufólk sitt til verka með öflugan stuðning að baki sér.

Framtíð Fræðagarðs

  • Við finnum mörg fyrir því að síðustu tvö árin hafa verið mjög krefjandi. Erfiðara hefur verið að koma saman til staðarfunda en rafrænir fundir hafa orðið margir og í raun hefur samtalið við félagsfólk verið meira og ítarlega en nokkru sinni í sögu félagsins. Fjarfundaformið er því örugglega komið til að vera.

    Þessir einkennilegu mánuðir hafa fært okkur ný vandamál, um margt ólík þeim sem við höfum glímt við áður. Það er ljóst að á komandi mánuðum og árum munu stéttarfélög þurfa að laga sig að nýjum viðfangsefnum, nýjum raunveruleika á vinnumarkaði. Um sumt erum við að sjá afturhvarf til miðrar síðustu aldar þegar átök stóðu sem hörðust um grundvallar réttindi launafólks. Að þeim réttindum er nú sótt og við því þarf að bregðast.

    En samfélagið breytist og þróast líka til betri vegar. Stéttarfélög þurfa að gera sig gildandi sem aldrei fyrr í mörgum samfélagsmálum. Jafnréttismál ber þar hátt og aðrar réttmætar kröfur um jöfnuð og réttlæti. Þetta eru gildi sem ég vil alltaf hafa að leiðarljósi í störfum fyrir félagsfólk Fræðagarðs.

  • Tökumst saman á við breytingar

    Eitt af megin hlutverkum stéttarfélaga verður að auðvelda félögum sínum að takast á við þær breytingar sem þetta hefur í för með sér. Hlutastörf og verkefnaráðningar stefna í að verða meira ráðandi heldur en áður. Háskólamenntunin ein og sér gefur ekki ótakmarkaðan aðgang að verkefnum á vinnumarkaði hvorki nú né í framtíðinni.

    Samkeppni fer vaxandi og árangur í starfi er mældur með ýmsum aðferðum, sem stundum virðast framandi og illskiljanlegar. Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem brugðust við könnun okkar um kjaralega stöðu síðustu tvær vikurnar. Það er ómetanleg hjálp að fá að sjá og lesa um viðhorf og kjör fólksins okkar, sem okkur ber að semja fyrir. Starfsmatskerfið sem við búum við hefur ekki staðið undir þeim væntingum sem við bundum við það í upphafi. Fræðagarður berst fyrir jöfn laun fyrir sömu eða sambærileg störf.

    Starfsmatskerfið sem slíkt skapar ekki kynbundinn launamun en þær greiðslur sem tíðkast í sveitarfélögum til hliðar við það gera það sannarlega og samkvæmt þeim upplýsingum sem okkur hafa borist frá félagsfólki eru tækifæri til leiðréttingar afar takmörkuð. Auk þess nær kerfið ekki utan um háskólamenntun okkar og fjölbreytni starfa okkar. En við erum líka að semja upp á nýtt í samfélagslegu umhverfi þar sem eftirköst COVID-19 eru enn sýnileg. Allt skiptir þetta máli.

  • Samningar

    Á þessu ári bíða okkar flókin verkefni hvað kaup, kjör og aðbúnað varðar. Það mun reyna mikið á útsjónarsemi og langtímahugsun í samningaviðræðum við ríki, sveitarfélög og einkamarkaðinn. Við búum við hraða þróun á vinnumarkaði, þar sem krafan um sveigjanleika og tileinkun nýrrar þekkingar og hæfni verður sífellt ágengari.

    Í náinni framtíð munum við sjá mörg störf sem við þekkjum hverfa og önnur ný verða til. Við héldum áfram langt inn í sumarið í fyrra og erum sífellt að vinna að stofnanasamningum og nú er framundan samningalota með Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Gildandi samningur okkar rennur út nú um næstu áramót og því ekki eftir neinu að bíða.

  • Félagsfólk um allt land fái góða þjónustu

    Við erum nú að hefja undirbúning fyrir aðalfund félagsins með tilheyrandi skýrslugerð, fjárhagsáætlun, kosningum og öðru því sem við vinnum í lok árs. Aðalfundurinn framundan verður blandaður eins og í fyrra, þ.e.a.s. bæði staðfundur og stafrænn fundur. Okkur sýnist að við sjáum fólk víðar að af landinu með þessu fyrirkomulagi og það skiptir máli í félagi sem telur yfir 3300 manns en það er þreföldun á þeim hópi sem var í Fræðagarði við stofnun 2008.

    Mikil vinna hefur verið lögð í að byggja upp stafrænt þjónustuver til að þjónusta allt okkar félagsfólk hvar sem það er statt. Sú vinna er enn ekki fullunnin en ég mun leggja áherslu á að leiða þá vinnu áfram.

Ýmis málefni

Um mig

Í dag er ég eiginmaður, faðir og afi. Frá því að ég man eftir mér hef ég alltaf haft mikla trú á menntun og talið hana geta opnað fyrir mér margs konar leiðir í lífinu. Ég hef líka talið mikilvægt að berjast fyrir réttindum á vinnumarkaði og sanngjörnum launum. Faðir minn var formaður í Verkalýðs- og sjómannafélagi Akraness og ungur kynntist ég kjarabaráttu sem oft var óvægin.

Þegar ég varð táningur kom ekkert annað til greina en að vinna á sumrin, afla tekna, en líka reynslu. Ég kynntist fólki sem hafði unnið með bæði föður mínum og afa og sá af þeim mynd sem ég hafði ekki séð áður. Hvatningu til fyrst að fara í menntaskóla og síðan í háskóla fékk ég bæði frá foreldrum mínum og ömmum.

Ég fór í Menntaskólann á Akureyri og vann á sumrin í Sementsverksmiðjunni á Akranesi, mokaði skurði í akkorði á Akureyri, var á nætuvöktum á Edduhóteli og síðan sem gæslumaður á geðdeildum. Þessi reynsla af atvinnulífinu skipti mig miklu máli. Síðan tók háskólanámið við.

Ég lauk kandidatsprófi í guðfræði, uppeldis- og kennslufræði, sérnámi í sálgæslu frá Bandaríkjunum, námi í fjölskylduvinnu og fjölskyldumeðferð frá Endurmenntun H.Í., meistaraprófi í guðfræði sem var byggt á rannsóknarverkefni og loks doktorsprófi mannfræði. Ég hef verið í símenntun alla mína ævi og er ekki hættur.

  • Menntun

    Ég tel fjölbreytta símenntun mjög mikilvæga fyrir háskólamenntað fólk og hef að baki fjölmörg námskeið á ýmsum sviðum sem hafa ýtt undir skapandi hugsun og fjölbreytta nálgun að viðfangsefnum.

    • Ég var útskrifaður sem stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1977.
    • Lauk embættisprófi í guðfræði frá H.Í. 1982 og uppeldis- og kennslufræði frá sama skóla 1983.
    • Lauk sérnámi í sálgæslu frá United Hospital í Norður Dakóta og Abbot Northwestern Hospital í Minnesota 1986-1988 (grunnnám og framhaldsnám, basic og advanced). Lauk starfstengdu námi í fjölskylduvinnu og fjölskyldumeðferð frá Endumenntun H.Í. 1995-1997.
    • Lauk meistaraprófi í hagnýtri guðfræði frá guðfræðideild H.Í. með rannsóknarverkefninu “Ekklar á Íslandi 1999-2001” 2004.
    • Varði doktorsritgerð við félags- og mannvísindadeild H.Í. 13. júní 2014 “Death Talk and Bereavement: Icelandic Men and Widowers”. Doktorsverkefnið er á sviði mannfræði heilsu, sálfræði og sálgæslu.
    • Ég var í stjórnarmaður í Starfsþróunarsetri BHM 2011- 2021(setrið veitir styrki í sí- og endurmenntun).
  • Ritstörf

    Ég hef skrifað fjölda greina um ýmis málefni, bæði faggreinar og greinar fyrir almenning

    1. ”Gleym-mér-ei”. Ríkisspítalar 1989, 1990, 1995
    2. “Von”. Hörpuútgáfan 1992. Hefur líka komið út sem hljóðbók á vegum Blindrafélagsins
    3. “Sorg barna”. Skálholtsútgáfan 1994
    4. “Sorg í ljósi lífs og dauða”. Reykjavík 2001
    5. “Masculinity Revisited”. Reykjavík 2002
    6. “Ekklar og kvæntir karlar”. (Byggt á Meistaraverkefni mínu) Háskólaútgáfan, Reykjavík 2005
    7. Doktorsverkefnið ”Death and Bereavement: Icelandic Men and Widowers” Háskólaútgáfan 2014.
    8. Ritstýrði tímariti Nýrrar Dögunar, samtaka um sorg og sorgarviðbrögð í Reykjavík 1991, 1992 1993
    9. Ritstýrði "Í umræðunni á Ríkisspítölum" 1992, 1993, 1995, 1996, 1997, 1999
    10. Ritstjóri fréttabréfs Nýrrar dögunar 1990-1994
    11. Ritstýrði kynningabæklingi Nýrrar dögunar 1992
    12. Var í ritnefnd tímaritsins "19. júní" árg. 1999 og 2000